Ríkisstjórninni hefur mistekist

Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis, segir að ríkisstjórninni hafa mistekist að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný.

Björgvin tók sæti á Alþingi á ný í dag en hann fór í launalaust leyfi fyrir tæpu hálfu ári til að gefa þingmannanefndinni svigrúm. Nú er þeirri vinnu lokið og Alþingi hefur samþykkt að ekki beri að höfða mál gegn Björgvini. Í viðtali við fréttastofu RÚV segist Björgvin ekki sjá annað fyrir sér en að samvinna við þingmennina verði fín, meðal annars samvinna við þingmenn sem kusu með því að hann yrði ákærður fyrir Landsdómi.

Björgvin segir þessa ríkisstjórn hafa tekið við erfiðu verkefni fyrir einu og hálfu ári og brekkan hafi verið brött. Veturinn verði þungur en nú reyni á Alþingi og ríkisstjórn.
Hann segir framhaldið ráðast af tvennu. Annars vegar hvernig Alþingi og ríkisstjórn takist að ná utan um málefni skuldara og skuldsettra heimila og hins vegar því hvernig takist að koma hjólum atvinnulífsins af stað.

Frétt RÚV