Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sunnlenskra sveitarfélaga

Frá fundinum á Hótel Læk í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ríkisstjórn Íslands kom saman til fundarhalda á Hótel Læk á Rangárvöllum í dag.

Auk hefðbundins ríkisstjórnarfundar og vinnufundar ríkisstjórnarinnar átti ríkisstjórnin fund með fulltrúum sveitarfélaga í Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Fjölmörg áherslumál sveitarfélaganna voru til umræðu á fundi ríkisstjórnar með fulltrúum sveitarfélaganna, m.a. samgöngumál, málefni heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila á svæðinu, fráveitumál, staða ferðaþjónustunnar, störf á landsbyggðinni, svo sem störf án staðsetningar, menningarmál, raforkumál og staða sveitarfélaga á Suðurlandi almennt í COVID-19 faraldrinum.

„Það er ánægjulegt að eiga þetta beina samtal við sveitarfélögin á svæðinu en það má segja að fulltrúar þeirra, eins og fulltrúar annarra sveitarfélaga, hafi staðið í framlínunni undanfarna mánuði og náð að aðlaga störf sín og þjónustu við almenning á undraverðum tíma að gjörbreyttum aðstæðum í samfélaginu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra að fundi loknum.

Fyrri greinSækja slasaða stúlku við Þingvallavatn
Næsta greinÖruggur sigur Hamarsmanna