Ríkisstjórnin fundaði á Selfossi

Ríkisstjórn Íslands fundaði á Selfossi í morgun. Að því loknu var haldinn blaðamannafundur þar sem nokkur væntanleg verkefni á Suðurlandi voru kynnt.

Jafnframt var undirritaður samningur um hönnunarsamkeppni vegna stækkunar á verknámsaðstöðu Fjölbrautaskóla Suðurlands. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir verði boðnar út í september á þessu ári. Eins og fram hefur komið í fréttum er um að ræða 1.630 m2 viðbyggingu við núverandi verknámsaðstöðu skólans. Áætlaður kostnaður er um 650 milljónir króna sem skiptist þannig að ríkissjóður greiðir 60% en sveitarfélög á svæðinu 40%.

Þá voru einnig kynnt áform um byggingu þriðju hæðarinnar á eldri byggingu sjúkrahússins á Selfossi. Gert er ráð fyrir að hefjast handa við fyrsta hluta framkvæmdanna á þessu ári og ljúka honum í byrjun næsta árs. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður rúmir 1,3 milljarðar króna.

Þá undirritaði umhverfis- og auðlindaráðherra samning við Framkvæmdasýslu ríkisins um byggingu þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri. Gert er ráð fyrir 290 m.kr. framlagi til byggingarinnar næstu þrjú árin, eða samtals 870 m.kr. króna. Eins og greint hefur verið frá mun Þekkingarsetrið hýsa gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, skrifstofu Skaftárhrepps og Erró-setur auk starfsemi á vegum Háskóla Íslands.

Fyrri greinHamar náði ekki að stríða Valskonum
Næsta greinSpennandi tónleikar í Skálholti