Ríkisstjórnarfundur á Selfossi á morgun

Ríkisstjórn Íslands heldur reglulegan ríkisstjórnarfund á Selfossi á morgun, föstudag kl. 9 á Hótel Selfossi. Rædd verða hefðbundin málefni en auk þess verkefni sem sérstakega tengjast Suðurlandi.

Að loknum ríkisstjórnarfundi verður haldinn hádegisverðarfundur með sveitarstjórnarfólki á Suðurlandi þar sem skipst verður á skoðunum og fyrirspurnum svarað.

Blaðamannafundur verður haldinn á Hótel Selfossi kl. 13:30 að loknum fundi með sveitarstjórnarmönnum. Kynnt verða ýmis verkefni á Suðurlandi sem tengjast opinberum framlögum og samskiptum ríkis og sveitarfélaga á Suðurlandi. Að þessu loknu er gert ráð fyrir því að ráðherrar hafi tækifæri til þess að heimsækja vinnustaði og/eða stofnanir á Suðurlandi.

Með fundinum á Selfossi er hringnum lokað, en ríkisstjórnarfundir hafa verið haldnir í öðrum landshlutum á kjörtímabilinu, á Akureyri, Ísafirði, í Reykjanesbæ og á Egilsstöðum.

„Sú nýbreytni að halda ríkisstjórnarfundi utan Reykjavíkur hefur verið lærdómsrík og dýrmæt. Það hefur verið ánægjulegt að hitta sveitarstjórnarmenn og aðra sem vinna að hag landshlutanna á heimavelli þeirra og ég er sannfærð um að þessi samskipti og það samtal sem fram hefur farið milli ráðherranna og heimamanna á hverjum stað hefur nú þegar skilað nokkrum árangri og er til þess fallið að auka og bæta samskipti framkvæmdavaldsins við sveitarstjórnarstigið,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í fréttatilkynningu.

Fyrri greinKaffihús í stað leikskóla
Næsta greinTveir stórleikir í bikarnum