Ríkið tryggi Háskólafélaginu og Fræðslunetinu nægt fjármagn

Bæjarráð Árborgar hvetur ríkisvaldið til þess að tryggja Háskólafélagi Suðurlands og Fræðsluneti Suðurlands það fjármagn sem þarf til að halda úti sinni starfsemi á svæði sem spannar allt frá Hellisheiði í vestri að Hornafirði í austri.

Í bókun bæjarráðs segir að starfsemi þessara stofnana hafi verið vaxandi á undanförnum árum og er það starf sem þar er unnið gríðarlega mikilvægt fyrir fræðslu og endurmenntun á svæðinu í heild sinni. Mikilvægt sé að gæta jafnræðis í útdeilingu fjármagns til fræðslustarfs á landsbyggðinni.

Bæjarráð tekur undir áhyggjur stjórnar Háskólafélags Suðurlands – Þekkingarnets á Suðurlandi en á stjórnarfundi félagsins í síðustu viku var samþykkt bókun þar sem stjórnin lýsir furðu sinni á fjárframlögum til félagsins og Fræðslunetsins í frumvarpi til fjárlaga 2015.

„Fyrir liggur að Sveitarfélagið Hornafjörður færðist af starfssvæði Austurbrúar um síðustu áramót til félaganna tveggja en þessa sér ekki stað í fjárveitingum til stofnananna skv. fjárlagafrumvarpinu. Með þessu virðist staðfestast sá grunur að málefnalegar ástæður eru ekki fyrir hendi við skiptingu opinberra fjármuna milli einstakra símenntunarstöðva og þekkingarneta. Stjórnin beinir því til Ríkisendurskoðunar að hún taki málið til skoðunar. Að gefnu tilefni skal það tekið fram að skipting fastra fjárveitinga til símenntunarmiðstöðvanna virðist ekki hafa verið til skoðunar í nýlegri aðkeyptri úttekt ráðuneytisins á málefnum framhaldsfræðslunnar,“ segir í bókun stjórnar Háskólafélags Suðurlands.

Fyrri greinViðbúnaður vegna mögulegrar loftmengunar
Næsta greinTRS hlýtur ISO vottun