Ríkið mátti ekki hækka leigugjald jarða einhliða

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi, árið 2012, ekki haft heimildir til að hækka leigu fyrir ríkisjörðina Jórvík 1 í Álftaveri, en ábúandi þar leitaði til umboðsmanns vegna málsins snemma árs 2013.

Það var Sigurður Sigurjónsson, lögmaður hjá Lögmönnum Suðurlandi, sem rak málið fyrir hönd ábúanda sem hefur haft ábúðarrétt á jörðinni frá því árið 1985. Í niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis kemur fram að ráðuneytið verði að taka málið upp að nýju, og að sjónarmiðin að baki málarekstrinum og niðurstaða hans kunni að eiga við í fleiri tilvikum þar sem ríkið tók einhliða ákvörðun um að hækka leigugjaldið á ríkisjörðum.

Því er talið líklegt að aðrir sem búa á ríkisjörðum og greitt hærra leigugjald um árabil geti sótt rétt sinn vegna þessarar niðurstöðu umboðsmanns. Leigugjaldið var hækkað um tvöfalda þá upphæð sem var.

Ábúandinn hefur um árabil óskað eftir því við ríkið að fá jörðina keypta en lítið hefur heyrst frá ríkinu varðandi það mál, og bar það fyrir sig að flóknum landamerkjamálum væri um að kenna. Frá því fyrst var óskað eftir kaupunum eru liðin átta ár. Taldi umboðsmaður það ekki samrýmast málshraðareglu stjórnsýslulaga og beinir því til ráðuneytisins að afgreiða mál er varðar kaup ábúandans svo sem frekast er kostur.