Ríkið áfrýjar í Sólheimamáli

Velferðarráðherra hefur ákveðið að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Sólheima í Grímsnesi gegn íslenska ríkinu til Hæstaréttar.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, kynnti ákvörðunina á fundi ríkisstjórnar í dag.

Sólheimar höfðuðu málið vegna 4% skerðingar fjárframlags til stofnunarinnar árið 2009. Krafist var viðurkenningar á því að skerðingin væri ólögmæt og til vara að um væri að ræða vanefnd þjónustusamnings ríkisins við Sólheima.

Ríkið var sýknað af aðalkröfu Sólheima í málinu og var hvorki fallist á að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar né 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til framfærsluaðstoðar. Aftur á móti var það niðurstaða dómsins að með því að skerða fjárframlag til Sólheima um 4% með fjárlögum ársins 2009 hefði ríkið vanefnt samningsskuldbindingar sínar samkvæmt þjónustusamningi.

Velferðarráðuneytið telur ýmis veigamikil rök fyrir því að áfrýja dóminum og er ákvörðun ráðuneytisins um það í samræmi við álit ríkislögmanns.

Helstu rök fyrir áfrýjun eru talin upp á heimasíðu ráðuneytisins og eru þau þessi:

  • Samkvæmt dóminum felst vanefnd samningsins í ákvörðun Alþingis um að skerða framlag til Sólheima á fjárlögum ársins 2009. Þetta eitt og sér er að mati ráðuneytisins tilefni til áfrýjunar þar sem það hljóti ávallt að vera forsenda samninga sem þessara að fé fáist á fjárlögum. Bendir ráðuneytið á að í einni grein samningsins er sérstakur fyrirvari af hálfu ráðuneytisins um fjárveitingu á fjárlögum.
  • Ráðuneytið dregur í efa þá niðurstöðu dómsins að samningur við Sólheima hafi verið í gildi 1. janúar 2009 enda var hann tímabundinn til ársloka 2008. Ráðuneytið telur orka tvímælis að unnt sé að túlka ákvæði samningsins um gildistíma, uppsögn og endurskoðun á þann veg að það nægi að annar aðilinn lýsi vilja til endurnýjunar hans. Vart fái staðist sú forsenda dómsins að þurft hafi að segja upp samningnum þegar samningstíminn var liðinn.
  • Í dóminum er fallist á að ríkið hafi vanefnt samningsskuldbindingar sínar en aftur á móti er ekki ljóst hvort dómurinn leiðir til skaðabótaskyldu og ef svo er, hver eigi þá að bregðast við; ráðuneytið eða Alþingi, eða hvort heimilt sé að greiða bætur vegna vanefnda á samningi. Ráðuneytið telur nauðsynlegt að fá úr þessu skorið.
  • Þjónustusamningar sem ríkið gerir eru á annað hundrað og þjónustusamningar á sviði velferðarráðuneytisins sem greitt er samkvæmt árið 2011 eru 27. Eru þá ótaldir eldri þjónustusamningar sem gerðir voru af hálfu félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna þjónustu við fatlaða sem nú eru á hendi sveitarfélaga, að meðtöldum samningi við Sólheima. Niðurstaða héraðsdóms í máli Sólheima gæti því haft fordæmisgildi og því mikilvægt að mati ráðuneytisins að áfrýja dóminum til að eyða óvissu varðandi forsendur og gildistíma þjónustusamninga.