Ríkið áfrýjar ekki en greiðir ekki heldur

Þrátt fyrir að nú séu ríflega fimm ár síðan Sigurður Haukur Jónsson, bóndi í Skollagróf í Hrunamannahreppi, þurfti að skera niður vegna riðu hefur hann ekki fengið tjónið bætt.

Dómur féll í málinu 2. júlí síðastliðin í Héraðsdómi Reykjavíkur með fullnaðarsigri Skollagrófarbænda. Þar voru þeim dæmdar fullar bætur ásamt vöxtum. Nú er unnið að því að innheimta greiðsluna. Áfrýjunarfrestur er runnin út en ekkert bólar á svörum eða greiðslu frá ríkinu. Lögmaður Sigurðar hefur sent atvinnuvegaráðuneytinu og ríkislögmanni innheimtubréf og knúið á um greiðslur.

Sigurður segir að framferði stjórnvalda nú sé í takt við annað í málinu. Hann hyggst hefja fjárbúskap aftur næsta haust ef uppgjör berst í tíma en rekið er kúabú að Skollagróf auk hrossaræktunar.

Málið er tilkomið vegna riðusmits á bænum Skollagróf haustið 2007 þar sem fargað var um 320 fjár, þarf af 170 fullorðnu. Hjónin Sigurður og Fjóla Helgadóttir sættu sig ekki við bætur sem Matvælastofnun áætlaði vegna tjóns þeirra að upphæð rúmlega 4,2 milljón krónur. Var Matsnefnd eignarnámsbóta fengin til að úrskurða í málinu og í mars 2010 var það niðurstaða nefndarinnar að greiða bæri bændunum alls 13,9 milljónir í bætur, vegna förgunar, afurðatjóns, niðurrifs, hreinsunar og jarðvegsskipta auk málskostnaðar. Þar af voru afurðatjónsbætur lengdar um eitt ár vegna málstafa.

Við þetta sætti ríkið sig ekki og lagðar voru inn 4,2 milljónir á reikning bændanna í júlí 2010 og þeim send kvittun um að um fullnaðargreiðslu væri að ræða, án frekara samráðs við þá sem fyrir tjóninu urðu.