Rifu upp mosa á Þingvöllum

Nokkrir tjaldgestir sem gistu í Vatnskoti við Þingvallavatn um helgina unnu skemmdir á gróðri og mosa þegar þeir rifu upp mikið magn af mosa í þeim tilgangi að einangra tjöld sín betur.

Landverðir á vakt um helgina urðu varir við mosabeð allt í kringum tjöld ferðalanganna og höfðu afskipti af þeim og ræddu við þá. Við nánari aðgæslu kom í ljós að mörg opin sár voru í mosahulu skammt frá.

Á Facebooksíðu þjóðgarðsins kemur fram að landverðir hafi lesið yfir fólkinu og voru ferðalangarnir miður sín en þeir höfðu talið að þetta væri í lagi. Síðar hurfu þeir á brott.

Landverðir eyddu drjúgri stund í að hylja sum sárin sem tókst að einhverju leyti en einsog flestir vita tekur mjög langan tíma fyrir mosa að jafna sig og ekki hægt að lagfæra allt að fullu.

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu.