Rifu afréttargirðingu fyrir mistök

Skeiða- og Gnúpverjahreppur reif niður afréttargirðingu árið 2009 sem var í eigu Landgræðslu ríkisins. Girðingin var staðsett á Hafinu á Gnúpverjaafrétti og hefur Landgræðslan krafist þess að hún verði endurreist.

Oddur Guðni Bjarnason, oddviti minnihlutans, hefur farið fram á upplýsingar varðandi þetta mál og hverjir greiði kostnaðinn við að reisa girðinguna að nýju.

Í svari Gunnars Arnar Marteinssonar, oddvita, á hreppsnefndarfundi kemur fram að „girðingin var rifin vegna þess að verið var að endurskipuleggja girðingarmálin í kringum Sultartangastöðina og ganga þar frá málum eins og til stóð í upphafi. Ekki var talin þörf á að viðhalda þeirri girðingu sem rifin var enda svæðið innan hennar orðið vel gróið og girðingin þurfti orðið talsvert viðhald.“

Hins vegar láðist sveitarstjórn og Landsvirkjun að gæta að því að samningur var til við Landgræðsluna sem kveður á um að sveitarfélagið verði að viðhalda girðingu á svæðinu þar til Landgræðslunni þóknast.

Kostnaður við girðingaframkvæmdirnar er áætlaður á milli tvær og þrjár milljónir kr. og ætlar sveitarfélagið að fá Landsvirkjun til að taka þátt í að greiða reikninginn þar sem mistökin voru sameiginleg

Fyrri greinHamar steinlá í Keflavík
Næsta greinHvar var Þorsteinn? – I