Richardson með 53 stig gegn Blikum

Gnúpverjar töpuðu naumlega gegn Breiðabliki þegar liðin mættust í Fagralundi í 1. deild karla í körfubolta í dag. Úrslitin réðust á lokamínútunni.

Gnúpverjar byrjuðu leikinn af krafti, komust í 17-11 og leiddu 23-19 að loknum 1. leikhluta. Everage Richardson skoraði sextán stig fyrir Gnúpverja á fyrstu tíu mínútunum og hann bætti um betur með 22 af 25 stigum heimamanna í 2. leikhluta. Staðan var 48-41 í hálfleik.

Leikurinn snerist algjörlega í 3. leikhluta þar sem Blikar stoppuðu upp í götin í vörninni og fóru á kostum í sókninni. Þeir komust yfir, 54-56, þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og staðan var orðin 69-76 í upphafi 4. leikhluta.

Síðasti fjórðungurinn var spennandi en Gnúpverjar komust aftur yfir þegar rúm mínúta var eftir, 85-84. Blikar nýttu lokamínútuna hins vegar vel og skoruðu síðustu tíu stig leiksins á meðan Gnúpverjar hittu ekki neitt. Lokatölur 85-94.

Everage Richardson var yfirburða maður á vellinum í dag og skoraði 53 stig. Atli Örn Gunnarsson átti líka fínan leik og var að frákasta vel.

Gnúpverjar eru áfram í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en Blikar eru í 2. sæti með 14 stig.

Tölfræði Gnúpverja: Everage Richardson 53/4 fráköst/6 stoðsendingar, Atli Örn Gunnarsson 8/15 fráköst, Hraunar Karl Guðmundsson 7, Ægir Hreinn Bjarnason 7, Tómas Steindórsson 6/7 fráköst, Garðar Pálmi Bjarnason 2/7 fráköst, Svavar Geir Pálmarsson 2, Hákon Már Bjarnason 7 fráköst/5 stoðsendingar.

Fyrri greinBjört kosin formaður Bjartrar framtíðar
Næsta greinÖruggt hjá Selfyssingum gegn botnliðinu