„Reynum að halda dampi“

„Það er ekki gott að leggja mat á tjónið en húsið er ekki vel farið að innan,“ segir Axel Þór Gissurarson, framkvæmdastjóri, Selóss á Selfossi.

Mikill eldur kom upp í trésmíðaverkstæðinu í gærkvöldi og er tjónið mikið innanstokks en burðarvirki hússins virðist hafa haldið. Þrátt fyrir þetta áfall segir Axel að starfsmenn hans hafi vinnu áfram.

„Við ætlum að reyna að halda dampi og halda okkar mönnum í vinnu eins og hægt er,“ segir Axel en fimmtán manns vinna hjá fyrirtækinu yfir sumartímann. Selós hefur m.a. smíðað innréttingar í nýja barnaskólann á Stokkseyri og var langmestur hluti þeirra kominn inn í skólann og er unnið að uppsetningu þeirra.

Axel segir tryggingamál fyrirtækisins í skoðun. „Við erum að fara yfir tryggingarnar hjá okkur og þær eiga að vera í lagi en maður veit það svo sem ekki fyrr en hreinsað hefur verið út úr húsinu og tjónið metið.“

Rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi hóf í morgun frumrannsókn á eldsupptökum en beðið er eftir liðsinni frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tæknideildin mun hefja störf öðru hvoru megin við helgina og er reiknað með að rannsókn á eldsupptökum taki nokkra daga.

Fyrri greinFannst sofandi í bifreið
Næsta greinFylgjast grannt með eldstöðinni