Reynir og Brynja fyrstu íbúar Kambalandsins

Reynir Þór og Brynja ásamt Eyþóri Ólafssyni, forseta bæjarstjórnar, í nýja húsinu. Ljósmynd/Aldís Hafsteinsdóttir

Reynir Þór Garðarsson og Brynja Sif Sigurjónsdóttir eru fyrstu íbúarnir til að flytja í Kambalandið, hið nýja hverfi í Hveragerði.

Forseti bæjarstjórnar og bæjarstjóri heimsóttu þau á flutningsdaginn og færðu þeim blóm sem vonandi mun dafna vel rétt eins og þau og aðrir íbúar Kambalands sem flytja munu inn í íbúðir sínar eina af annarri á næstu dögum og vikum.

Í fyrsta áfanga Kambalands er gert ráð fyrir 35 einbýlishúsum, 59 íbúðum í raðhúsum og 60 íbúðum í fjölbýlishúsum. Stórum meirihluta lóða fyrir þessar íbúðir hefur þegar verið úthlutað en í sumar mun þó verða úthlutað lóðum fyrir 19 einbýlishús og snemma árs 2022 verður úthlutað lóðum fyrir stórt raðhús og fleiri fjölbýlishús.

Að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra, er áhugi bæði einstaklinga og fyrirtækja á þessum reit mjög mikill og segir hún ánægjulegt að sjá hversu vel og hratt uppbygging í Kambalandi gengur. Kambaland er 30,4 hektarar að stærð og þessi fyrsti áfangi er einungis fyrsta skrefið að stórfelldri uppbyggingu á þessum einstaka útsýnisreit á Suðurlandi.

Fyrri greinFriðrik ráðinn verkefnastjóri Oddafélagsins
Næsta greinAndrés Ingi til liðs við Pírata