Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samstarfi við tollgæsluna og lögregluna á Suðurlandi, hefur lokið rannsókn á umfangsmiklu fíkniefnamáli sem kom upp í sumar, en þá fundust tæplega 6 kg af kókaíni í bifreið sem var flutt með fragtskipi til Þorlákshafnar.
Þrír erlendir ríkisborgarar sitja enn í gæsluvarðhaldi vegna málsins, en upphaflega voru sex manns handteknir vegna þess í júlí. Við aðgerðir því tengdu var enn fremur notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Málið er nú komið í ákærumeðferð hjá embætti héraðssaksóknara.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er minnt á upplýsingasíma lögreglu, 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um.
