Reyndi innbrot í apótek

Uppúr klukkan átta á Þorláksmessu var tilkynnt um mann sem sýnilega væri að reyna að brjótast inn í lyfjaverslun Lyfja og heilsu í Þorlákshöfn.

Maðurinn hætti við og hélt á brott en lögreglumenn fundu hann skömmu síðar í Þorlákshöfn. Hann reyndist á stolinni bifreið jafnframt því að vera undir áhrifum fíkniefna og ofan í kaupið reyndist hann hafa verið sviptur ökuréttindum. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Við yfirheyrslu viðurkenndi hann tilraun til innbrots í lyfjaverslunina en hann hætti við þegar hann sá fram á að glugginn sem hann hafði brotið væri í of mikilli hæð til að hann ætti möguleika á að ná upp í gluggann til að vega sig inn.

Tilganginn kvað hann hafa verið sá að komast yfir lyf. Maðurinn fór því næst á heilsugæsluna þar sem hann reyndi að fá lyf en þar var séð við honum.

Fyrri greinSölvakvöldið á föstudagskvöld – Sölvi sextugur
Næsta greinLampakrækir í Hveragerði