Reyndi aftur að kveikja í lögreglustöðinni

Síbrotamaður, sem var látinn laus fyrr í vikunni, eftir að Hæstiréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir honum, reyndi undir morgunn að kveikja í lögreglustöðinni á Selfossi.

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði manninn í allt að 30 daga gæsluvarðhald í síðustu viku, meðal annars vegna ítrekaðra tilburða til íkveikja á Selfossi að undanförnu. Hann var á kreiki á Selfossi í nótt og undir morgunn knúði hann dyra á lögreglustöðinni og óskaði eftir mat og gistingu í fangaklefa, en var fálega tekið, enda hefði fullt fæði og tryggt húsnæði í fangaklefa verið í boði í gæsluvarðhaldinu, sem hann vildi ekki una, og kærði til Hæstaréttar.

Lögregla tók erindi hans fálega í morgun og hleypti honum ekki inn, en þá gerði hann sér lítið fyrir og bar eld að dyrabjöllu, eða kalltæki við útidyr stöðvarinnar, en eldurinn hafði ekki náð útbreiðslu þegar lögreglumenn slökktu hann. Ekki liggur enn fyrir hvort þetta verði til þess að aftur verði krafist gæsluvarðhandsúrskurðar yfir honum.

Vísir greinir frá þessu: http://visir.is/sibrotamadur-reyndi-ad-kveikja-i-logreglustodinni-a-selfossi-/article/2012121019936

Fyrri greinGrunnskólanemar fá átta rafbækur að gjöf
Næsta greinGunnar þjálfar Selfyssinga