Reyndi að lokka barn inn í bíl

Lögreglan á Selfossi leitar að fólki sem varð vitni að því þegar ökumaður fólksbifreiðar gerði tilraun til að lokka 14 ára stúlku inn í bíl till sín á Selfossi um kl. 20 í gærkvöldi.

Lögreglan segir að stúlkan hafi brugðist rétt við, en hún forðaði sér og hafði samband við móður sína.

Atvikið var tilkynnt til lögreglunnar kl. 20:19 í gærkvöldi. Að sögn lögreglu var stúlkan ein á ferð en hún var að koma úr hesthúsahverfinu. Hún var að ganga eftir göngustíg sem liggur samhliða Langholti þegar bifreið stöðvar rétt hjá henni.

Ökumaðurinn gerði tilraun til að lokka barnið inn í bifreiðina, en hann tjáði stúlkunni að móðir hennar hefði sent sig til að sækja hana.

Stúlkan brást hins vegar hárrétt við að sögn lögreglu. Hún forðaði sér heim en var í símasambandi við móður sína á leiðinni. Bifreiðin ók hins vegar á brott í norðurátt eftir Langholti.

Lögreglan segir að stúlkunni hafi verið mjög brugðið en hún gat ekki gefið lýsingu á manninum eða bifreiðinni, þó er talið að um skutbifreið sé að ræða.

Lögreglan hvetur þá sem telja sig hafa orðið vitni að þessu atviki í Langholti að hafa samband í síma 480-1010.

mbl.is greinir frá þessu

UPPFÆRT KL. 17:10: Stúlkan reyndist vera fjórtán ára gömul en ekki tólf ára eins og fyrstu fréttir hermdu.

Fyrri greinGamlir sjónvarpsþættir sýndir í Héró
Næsta greinEngar vísbendingar borist lögreglu