Reyndi að hlaupa undan lögreglu

Á sunnudagsmorgun var ökumaður staðinn að því að aka undir áhrifum áfengis á Hellu.

Hann reyndi að komast undan lögreglunni en var handtekinn skammt frá bifreiðinni sem hann hafði yfirgefið.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Hvolsvelli. Þar kemur einnig fram að 91 mál var skráð hjá lögreglunni í liðinni viku. 27 ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka of hratt. Einn var stöðvaður á 145 km hraða við Dýralæki og annar á 140 km hraða við Álftaver.

Á fimmtudag var tilkynnt um að eldur hafi kviknað í eldhúsi í eldra íbúðarhúsi á sveitabæ í Austur-Landeyjum. Eldurinn hafði verið slökktur af heimafólki, en nokkrar skemmdir urðu á húsinu. Talið er hugsanlegt að kviknað hafi í út frá eldavél.