Reyna að halda sömu plöntuframleiðslu

Stjórnendur Suðurlandsskóga hafa undanfarið unnið við útfærslu á sparnaðaraðgerðum sem tilkomnar eru vegna áframhaldandi samdráttar í fjárlögum.

Að sögn Björns Jónssonar, framkvæmdastjóra Suðurlandsskóga, verður leitast við að skera ekki niður í plöntuframleiðslu enda sé það mat manna að hún sé komin nálægt því lágmarki sem verkefnið þolir.

Suðurlandsskógum er gert að draga saman um 9% samkvæmt fjárlögum 2011. Sömuleiðis er gert ráð fyrir áframhaldandi niðurskurði árið 2012, þó ekki liggi fyrir hve mikill hann verður. Að sögn Björns er búið að fara yfir það hvernig verði skorið niður hjá skrifstofunni. Einum starfsmanni hefur verið sagt upp og starfshlutfall annarr4a minnkað.

Hjá Suðurlandsskógum hafa starfað sjö manns en eftir niðurskurð síðasta árs voru eftir 4,9 ársverk. Framkvæmdir undir merkjum Suðurlandsskóga drógust mikið saman á árinu 2009, miðað við árið áður. Ástæðan er mikill samdráttur í fjárveitingum til verkefnisins auk vísitöluhækkunar sem kom á fullum þunga m.a. á plöntukaup.
Útplöntun trjáa hefur því minnkað mikið, en þó nokkru minna en niðurskurður fjármagns sem er að nálgast 50%, þegar lækkun vegna vísitölu er tekin með.

Á Suðurlandi eru 250 lögbýli sem tengjast verkefni Suðurlandsskóga á sviði skjólbelta- og skógræktunar.