Reyklausir Hellukrakkar til Köben

Krakkarnir í 7. bekk Grunnskóla Hellu sigruðu í samkeppni Lýðheilsustöðvar, Reyklaus bekkur 2009-2010.

Alls tóku 290 bekkir á Íslandi þátt í samkeppninni og hafa þeir aldrei verið fleiri. Krakkarnir á Hellu gerðu skemmtilegt og fræðandi myndband sem færði þeim sigurinn í keppninni. Verðlaunin eru ekki af verri endanum, ferð til Kaupmannahafnar fyrir allan bekkinn.

Á skólaárinu þurftu bekkirnir að staðfesta sex sinnum að þeir væru reyklausir og voru þá með í útdrætti um vinninga. Til að eiga möguleika á fyrstu verðlaunum þurftu bekkirnir að senda inn áhugavert efni tengt tóbaksvörnum. Í fréttatilkynningu segir að dómnefndinni hafi verið mikill vandi á höndum þar sem mjög mörg verkefni voru afar vel unnin.

Fyrri greinTryggingakerfið endurskoðað vegna Suðurlandsskjálfta
Næsta greinArnar og Bjarki í Árborg