Reykingar bannaðar við Geysi

Gerð verður tilraun í sumar með að banna reykingar við Geysi. Ólafur A. Jónsson hjá Umhverfisstofnun segir að það sé gert að gefnu tilefni, en óþrifnaður fylgi reykingum.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að töluverð vinna fari á hverju sumri í að hreinsa upp vindlingastubba og þetta vandamál sé áberandi við Gullfoss og Geysi, en einnig megi nefna þjóðgarðinn í Skaftafelli. Gangi þessi tilraun vel gæti hún orðið til eftirbreytni annars staðar.

Í sumar verður byggð lág göngubrú yfir útfallið á Strokk við Geysi. Pallur við Blesa verður endurnýjaður og stækkaður. Hellustígur verður endurbættur þar sem hann hefur aflagast. Lokið verður við frágang á kaðlagirðingu og uppsetningu varúðarskilta.

Fyrri greinSelfyssingar deildarbikarmeistarar
Næsta greinVilja hugmyndir almennings