Réttindalaus á 130 km/klst hraða

Lögreglan í Vík. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Lögreglan á Suðurlandi kærði 31 ökumann fyrir að aka of hratt í liðinni viku.

Einn þeirra reyndist að auki með útrunnin réttindi en hraði bifreiðar hans mældist 130 km/klst þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst á þjóðvegi 1 um Mýrdalssand.

Öðrum, ungum ökumanni á bráðabirgðaskírteini, var gert að sæta akstursbanni þar sem að punktafjöldi hans fór upp fyrir fjóra punkta. Hann þarf því að sækja sérstakt námskeið áður en hann getur hafið akstur á ný.

Af þessum 31 ökumanni eru 18 í Árnessýslu, fimm í Rangárvallasýslu, sex í V-Skaftafellssýslu og tveir í A-Skaftafellssýslu.

Fjórir ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að nota farsíma við akstur bifreiða sinna á og við Selfoss.

Fyrri greinÖkumenn hafi auga með sauðfé
Næsta greinÞórsarar undir í einvíginu