Rennsli Tungnaár í sögulegu lágmarki

Horfur í vatnsbúskap Landsvirkjunar hafa farið versnandi síðustu vikur vegna sögulega lítils innrennslis í Þórisvatn og Blöndulón og óvenjulega óhagstæðs tíðarfars að undanförnu með ríkjandi norðaustanáttum, kulda á hálendinu og lítilli úrkomu á lykilsvæðum.

Vatnsárið í fyrra var næst versta vatnsár í sögu Landsvirkjunar vegna úrkomuleysis og kulda á hálendinu síðasta vor og sumar og ekki náðist að fylla öll lón haustið 2013. Yfirstandandi vatnsár stefnir mögulega í að vera jafn slæmt.

Viðskiptavinum í stóriðju og heildsölu verið tilkynnt um skerðingar á raforkuafhendingu í samræmi við samninga. Áætlanir hafa gert ráð fyrir að draga í heild úr orkuafhendingu sem nemur 260 GWst eða um 2% af orkuvinnslu Landsvirkjunar.

Landsvirkjun endurmetur nú skerðingarþörf raforkuvinnslu vegna þessara óvenjulegu aðstæðna.

Í áætlunum Landsvirkjunar er miðað við sögulegar upplýsingar um rennsli síðustu 55 árin að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á veðurfari vegna hlýnunar loftlags. Undanfarin 10 ár hefur óvenju hátt hlutfall ára verið með innrennsli ofan meðallags og einungis eitt ár, árið í fyrra, með rennsli langt undir meðallagi. Í fyrra var rennsli mjög nálægt lægstu spám og náði hvorki Blöndulón né Þórisvatn að fyllast.

Innrennsli það sem af er vetri hefur verið afbrigðilegt. Rennsli í Tungnaá hefur verið minna en finna má í mælingum síðustu 55 árin og einnig er rennsli í Blöndu nálægt sögulegu lágmarki.

Tíðarfar á yfirstandandi vetri hefur verið mjög óhagstætt. Í febrúar var tíðarfar óvenjulegt, óvenjueindregin austan- og norðaustanátt og úrkoma var langt undir meðallagi um landið vestanvert og sérlega þurrt inn til landsins á Norðurlandi vestanverðu. Febrúar var víða hinn þurrasti um áratugaskeið, til dæmis í Reykjavík frá 1966.