Rennslið minnkar á hálendinu

Rennsli í Hvítá við Fremstaver á Kili hefur minnkað hratt í kvöld en það náði hámarki kl. 18:30 og var þá um 664 m3/sek.

Vatnsyfirborðið er enn að hækka við Gíslastaði og Auðsholt en er töluvert lægra en það var í flóðinu í desember 2007 og í stórflóðinu í desember 2006. Íbúar í Auðsholti töldu að um 50 sm djúpt vatn væri á veginum þar þar sem dýpst var.

Búist er við að vatnshæðin nái hámarki í Ölfusá við Selfoss með morgninum án þess að áin flæði yfir bakka sína. Þar hefur rennslið aukist jafnt og þétt í kvöld og var 1.014 m3/sek rétt fyrir kl. 2 í nótt.