Rekstur lofthreinsistöðvar hafinn

Tilraunarekstur lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun hófst á þriðjudaginn eftir nokkurra vikna gangsetningarprófanir. Þar með er niðurdæling brennisteinsvetnis frá virkjuninni hafin.

Gert er ráð fyrir að stöðin hreinsi 15-20% af brennisteinsvetninu og þar með minnka líkur á því að styrkur þess í andrúmslofti fari yfir mörk í byggð. Í tilkynningu segir að Orkuveitan muni gera sitt ýtrasta til að standast þau skilyrði sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sett fyrir fresti frá þrengdum mörkum sem það hefur veitt fyrirtækinu.

Í hreinsistöðinni er brennisteinsvetni og koltvísýringur skilin frá útblástursgufunni. Lofttegundirnar eru leystar upp í vatni frá virkjuninni og dælt niður á meira en 1.000 metra dýpi. Tilraunir, sem vísindafólk hér á landi og erlendis hefur unnið að síðustu ár, gefa til kynna að brennisteinsvetnið bindist berggrunninum sem steintegundin brennisteinskís, sem er betur þekkt sem glópagull.

Reikna má með að það taki nokkrar vikur eða mánuði að ná fullum tökum á tæknilegum rekstri stöðvarinnar. Samkvæmt þeirri verkefnisáætlun, sem unnið er eftir, er reiknað með að reka stöðina í eitt ár áður en metið er hvort þessi nýja aðferð ber tilsettan árangur.

Vísindamenn Orkuveitunnar telja að gangi þetta rannsóknar- og þróunarverkefni upp, sé þetta umhverfisvænsta og hagkvæmasta leiðin til að draga úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Það ræðst meðal annars af því að ekki er talið hagkvæmt, enn sem komið er, að vinna afurðir úr jarðhitaloftinu.

Með hreinsistöðinni skapast þó möguleikar á aukinni fjölnýtingu, það er að vinna verðmæti úr jarðhitagösunum. Stefnt er að því að skilja koltvísýring frá brennisteinsvetni í stöðinni. Hann er markaðsvara, til dæmis til nýtingar í gróðurhúsum og framleiðslu á vistvænu eldsneyti. Vetni gæti líka lagst til, sem nýta mætti í ýmsa framleiðsluferla, eða sem eldsneyti. Nokkrir aðilar eru áhugasamir um að láta á þessi tækifæri reyna og hafa verið í samskiptum við Orkuveituna vegna þess.

Samhliða niðurdælingunni er nú til skoðunar að reisa gufuháf við virkjunina. Rannsóknir á veðurfari við virkjunina benda til að með honum megi tryggja aukna dreifingu útblásturs og draga þar með úr styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Í umfangsmikilli verkefnisáætlun, sem Orkuveitan kynnti fyrir rúmu ári, kemur fram að samhliða niðurdælingu muni fyrirtækið skoða aðrar lausnir. Háfurinn er ein þeirra. Aðrar leiðir eru áfram til skoðunar.

Fyrri greinSumarlegt sólskinssalat
Næsta greinSelfosskonur áfram í bikarnum