Rekstur brugghússins tryggður

Gengið hefur verið frá kaupum á rekstri og eignum Ölvisholt Brugghúss af þrotabúi. Félagið sem kaupir reksturinn heitir Eignarhaldsfélagið Flóinn ehf.

Að félaginu standa Karl K. Karlsson, Eignarhaldsfélag Suðurlands, Jón E. Gunnlaugsson, Bjarni Einarsson og nokkrir minni fjárfestar.

Í fréttatilkynningu vegna viðskiptanna segir að rekstur hafi verið í lágmarki í brugghúsinu undanfarna mánuði eftir að rekstur félagsins fór í þrot á síðasta ári og Landsbankinn yfirtók rekstur þess eftir algjöran forsendubrest í kjölfar bankahrunsins.

Frá þeim tíma hafa fyrrum eigendur félagsins unnið að endurfjármögnun þess og fengið til liðs áðurtalda aðila. Karl K.Karlsson hefur lengi starfað með Ölvisholt Brugghúsi og séð um dreifingu á vörum þess á innanlandsmarkaði.

Eignarhaldsfélag Suðurlands er rekið af sveitarfélögum á Suðurlandi til fjárfestinga í fyrirtækjum á svæðinu. Í fréttatilkynningunni segir að ánægjulegt sé að sjá að heimamenn vilji sjá áframhaldandi rekstur á þeim grunni sem hafði verið lagður.

Ölvisholt hefur frá byrjun lagt áherslu á útflutning og hefur selt vörur til Svíþjóðar, Kanada og Danmerkur. Vörumerki félagsins, Freyja, Skjálfti, Móri og Lava hafa tryggt sig í sessi á öllum mörkuðum og salan aukist jafnt og þétt frá byrjun.

Nýja stjórn félagsinss skipa Arnbjörn Ólafsson, fjármálastjóri Karl K. Karlsson, Þorbjörn Jónsson, f.h. Eignarhaldsfélags Suðurlands og Jón E. Gunnlaugsson, sem einnig verður framkvæmdastjóri félagsins. Valgeir Valgeirsson verður áfram bruggmeistari Ölvisholts.

Markmið Ölvisholts er að kynna bjór sem valkost með góðum mat á góðri stund og ekki síður að kynna fyrir fólki þann óendanlega fjölbreytileika sem bjórgerð býður uppá.

Fyrri greinBylting í gerð skógarbrauta
Næsta greinRokkhlaup í Hveragerði