Rekstur bæjarsjóðs áfram erfiður

Gert er ráð fyrir 173,6 milljón króna afgangi af rekstri samstæðu Sveitarfélagsins Árborgar á næsta ári, samkvæmt fjárhagsáætlun sem kynnt var á bæjarstjórnarfundi í vikunni.

Er það nokkru betri rekstrarafkoma en á yfirstandandi ári.

Heildartekjur A og B hluta eru ætlaðar rétt tæplega 8 milljarðar króna. Eru það fyrirtæki og stofnanir bæjarins sem stuðla að jákvæðri afkomu.

Í greinargerð með áætluninni er tiltekið að mikil óvissa sé með útgjaldaliði sveitarfélagsins vegna þess að samningar hafa ekki náðst um laun kennara. Kennarar hafi sem dæmi fellt samning sem fól í sér 65 milljón króna hærri launagreiðslur til þeirra á ári, en nú megi gera ráð fyrir að sú upphæð hækki.

Fjárfestingar á næsta ári eru ætlaðar um 532 milljónir króna, og er það aukning um 130 milljónir á milli ára. Ljóst er að skuldir sveitarfélagsins eru enn miklar, en lítillega verður unnið á þeim skuldum á árinu, en auknar tekjur valda því jafnframt að skuldahlutfall ætti að vera komið niður í 130 prósent við lok árs.

Halli er á rekstri bæjarsjóðs sjálfs og er hann ætlaður 165 milljónir á næsta ári.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinHamar vann Suðurlandsslaginn
Næsta greinSindri Seim setti Íslandsmet