Rekstrarhalli HSU gríðarlegur

HSu á Selfossi. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Halli á rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands var 100 milljónir króna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Stofnunin glímir við verulegan fjárhagsvanda.

Höfuðstóll HSU var neikvæður um 350 milljónir króna við lok árs 2014. Fékk stofnuninn 135 milljónir króna í viðbjótarfjárveitingu umfram fjárlög árið 2015 til að standa straum af tilfallandi verkefnum sem komu til vegna sameiningar og vegna uppsafnaðs rekstrarhalla. Þrátt fyrir þessa aukafjárveitingu var 50 milljón króna halli á rekstrinum árið 2015 og höfuðstóllinn því orðinn neikvæður um 400 milljónir króna.

Samkvæmt fjárlögum þessa árs er ráðgert að stofnunin hafi um 4,1 milljarð króna frá ríkinu til rekstursins. Erfiðlega gengur að ná utan um hallareksturinn en velferðarráðuneytið hefur leitað eftir skýringum hjá stjórnendum stofnunarinnar og gripið hefur verið til hagræðingaraðgerða í rekstrinum. Þær aðgerðir eru undir eftirliti ráðuneytisins, en ekki fengust upplýsingar um hvaða aðgerðir er um að ræða.

Lausafjárstaða HSU er mjög slæm og mikið að útistandandi ógreiddum skammtímareikningum. Eftir því sem Sunnlenska kemst næst skuldar stofnunin þar á meðal ýmsum fyrirtækjum í héraðinu talsvert fé, og þar með talið einum lánardrottni sínum um 50 milljónir króna.

Eins og fram kom í fréttum í lok síðustu viku hefur átján starfsmönnum í rúmlega þrettán stöðugildum verið sagt upp hjá stofnuninni.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.

Fyrri greinSigurganga Árborgar heldur áfram
Næsta greinÞrír sunnlenskir afreksnemar hljóta afreksstyrk Háskóla Íslands