Reisa 1100 fermetra gróðurhús

Garðyrkjustöðin Sunna á Sólheimum hefur sótt um leyfi til byggingar 1.100 fermetra gróðurhúss og áformar að rækta í því lífrænt grænmeti.

Valdimar Ingi Guðmundsson forstöðumaður garðyrkjustöðvarinnar segir fyrirhugað að rækta tómata, gúrkur og papriku í gróðurhúsinu auk þess sem salat verði ræktað að vetri til. Sem gefur að skilja verður ræktunin undir lýsingu enda verður gróðurhúsið fjögurra metra hátt.

Segir Valdimar eftirspurn eftir lífrænu grænmeti stöðugt vera að aukast og því sé verið að stækka garðyrkjustöðina sem nú þegar er með 900 fermetra glerhús og 700 fermetra plasthús auk tveggja og hálfs hektara útiræktar. Jarðvinna vegna byggingarinnar fer brátt að hefjast og gert er ráð fyrir að grunnur rísi í vor.