Reglum um fráveitur og skólp við Þingvallavatn breytt

Við Þingvallavatn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur gert breytingu á reglugerð um framkvæmd verndunar vatnasviðs og lífríkis Þingvallavatns.

Breytingin heimilar að skólp frá húsum við Þingvallavatn verði hreinsað með tveggja þrepa hreinsun þar sem aðstæður leyfa. Ástand Þingvallavatns verður áfram vaktað á grundvelli laga um stjórn vatnamála og gripið til aðgerða eftir þörfum.

Vöktunargögn sýna að ástand Þingvallavatns er gott og hvorki eru merki um ofauðgun næringaefna, né hafi ástandi vatnsins hrakað með tilliti til tærleika, styrks köfnunarefnis, blaðgrænu og þörunga.

Afla skal samþykkis frá Heilbrigðisnefnd Suðurlands fyrir nýjum og endurbættum fráveitum og búnaði sem beita má á svæðinu við meðhöndlun, hreinsun og losun skólps, m.a. frá frístundahúsum og öðrum byggingum. Heilbrigðisnefndin stefnir að því að hreinsun á svæðinu við Þingvallavatn verði bætt og mun birta á vef sínum leiðbeiningar til eigenda frístundahúsa um hreinsun frá stakstæðum húsum sem lóðarhöfum við Þingvallavatn ber að vinna eftir.

Fyrri greinTekinn tvisvar sama daginn fyrir akstur undir áhrifum
Næsta greinAllt í sómanum í Veiðivötnum