Réðst á fyrrverandi sambýliskonu

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til nk. mánudags en hann er grunaður um að hafa ráðist inn á heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar í Hveragerði í gærmorgun og gengið í skrokk á henni með barefli.

Um kl. 10 í gærmorgun var lögregla kölluð að íbúðarhúsi í Hveragerði vegna manns sem hafði brotið sér leið inn og ráðist á konu. Maðurinn hvarf af vettvangi í bifreið sem hann ók en var handtekinn við Rauðavatn af lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu. Hann var færður í fangageymslu á Selfossi.

Konan var flutt á slysadeild Landspítala þar sem gert var að áverkum hennar sem voru einkum á höfði. Konan er ekki með alvarlega áverka en réttarmeinafræðingur var fenginn til að meta áverkana og taldi að þeir hefðu hlotist af barefli.

Ekki liggur neitt fyrir um aðdraganda árásarinnar og er sá þáttur meðal annars til rannsóknar.

Maðurinn var með í fórum sínum lítilræði af amfetamíni auk þess var hann ekki með ökuréttindi og grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fyrri greinKaupin ekki háð leyfi eftirlitsnefndar
Næsta greinSvandís lýsir sig vanhæfa