Réðust á dreng og þvinguðu hann til að reykja

Lögreglan á Selfossi leitar þriggja manna sem veittust að 10 ára dreng í skrúðgarðinum í Þorlákshöfn þann 7. september síðastliðinn milli klukkan 18 og 19.

Drengurinn sem varð fyrir árásinni gat lýst mönnunum sem eru taldir vera á vínrauðum skutbíl. Mennirnir eru allir ungir en einn þeirra er talinn 170 til 175 sentimetrar á hæð, stærstur þeirra, með mikið hár og topp greiddan til hliðar. Sá var klæddur í svarta peysu og hvíta skó.

Annar var þybbinn, ljóshærður með stutt hár klæddur í rauða hettupeysu og bláar gallabuxur. Þriðji maðurinn var ljósbrúnn á hörund með dökkt hár í hvítum bol.

Mennirnir veltu drengnum upp úr moldarbeði og þvinguðu hann til að reykja sígarettu.

Lögreglan á Selfossi er með málið til rannsóknar og sárvantar vitni. Hver sá sem hugsanlega hefur orðið vitni að þessum verknaði eða býr yfir einhverjum upplýsingum um hann er beðinn að hafa samband við lögregluna í síma 480 1010.