Réðist á dyravörð og hótaði lögreglu

Lögregla var kölluð að skemmtistað á Selfossi aðfaranótt sunnudags vegna ölvaðs manns sem réðist á dyravörð. Lögreglumenn höfðu afskipti af árásarmanninum sem í engu hlýddi fyrirmælum lögreglu.

Hann var handtekinn og færður í fangageymslu. Þar lét hann öllum illum látum og hafði í hótunum við lögreglumann. Dyravörðurinn hefur í hyggju að leggja fram kæru.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi. Þar segir einnig að tvö minniháttar fíkniefnamál hafi komið upp á Selfossi um helgina. Annars vegar fundust fíkniefni við húsleit í íbúð og hins vegar afskipti af stúlku sem var að reykja kannabis á tjaldsvæðinu á Selfossi.

Fyrri greinEnginn lífrænn úrgangur fluttur úr sveitarfélaginu
Næsta greinRotaðist á brúarstöpli