Rausnarleg gjöf til Brunavarna Árnessýslu

Forsvarskonur kvenfélaga Villingaholtshrepps, Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepps komu færandi hendi í aðalstöðvar Brunavarna Árnessýslu á Selfossi í dag.

Kvenfélögin voru búin að safna fjármunum til kaupa á alsjálfvirku hjartastuðtæki sem þær afhentu Pétri Péturssyni, settum slökkviliðsstjóra.

Þetta tæki hefur nú þegar verið staðsett á útkallsbifreið vakthafandi varðstjóra BÁ en vakthafandi varðstjóri er staðsettur á Selfossi en svarar útköllum hvar sem er í Árnessýslu. Með því að staðsetja hjartastuðtækið á þessu útkallstæki er búið að tryggja komu þess á sem flesta útkallsvettvanga Brunavarna Árnessýslu.

„Það er óhætt að segja að þessi rausnarlega gjöf kvenfélaganna auki öryggi íbúa Árnessýslu, gesta okkar, þeirra sem ferðast í gegnum sýsluna og slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu. Við færum þeim frábæru konum sem skipa þessi kvenfélög okkar bestu þakkir fyrir þann hlýhug sem þær sýna okkur með þessari gjöf,“ segir í frétt á Facebooksíðu BÁ.

Fyrri grein3. bekkur í heimsókn hjá slökkviliðinu
Næsta greinSebastian stal senunni