Rannsökuðu sandfok á Heklusvæðinu

Í nýjasta hefti Aeolian Research er grein eftir Elínu Fjólu Þórarinsdóttur í Gunnarsholti og Ólaf Arnalds um sandfok á Heklusvæðinu.

Heiti greinarinnar er „Wind erosion of volcanic materials in the Hekla area, South Iceland“. Aeolian Research er alþjóðegt ritrýnt tímarit sem er helgað rannsóknum á vindrofi.

Verkefnið var MS verkefni Elínar Fjólu við Landbúnaðarháskóla Íslands, en Ólafur var leiðbeinandi hennar.

Þau rannsökuðu sandfok á um 110 km2 svæði með því að koma fyrir sérstökum sandfoksgildrum á 25 stöðum á svæðinu auk mælinga með sjálfvirkum rafbúnaði sem mælir fok, vindhraða og fleiri umhverfisþætti samtímis.

Á heimasíðu Landgræðslunnar kemur fram að mælingar sem taka til svo stórs svæðis séu afar fátíðar, en þær gefa góða heildarmynd á hvernig fokið hagar sér í landslaginu. Mælingarnar fóru fram sumrin 2008-2009.

Mjög mikill breytileiki kom fram á milli staða sem er háður yfirborðsgerð og framboði fokefna. Í ljós kom að vatn, einkum leysingavatn, er afar mikilvægt til að flytja fínkorna sand inn á þau svæði þar sem mest fýkur. Þar sem fokið er mest nær það um 3 tonnum af sandi sem fýkur yfir hvern lengdarmetra ár hvert. Fokefni á svæðinu eru sums staðar grófur vikur og stærri korn hreyfast með vindi hér en þekkist í mælingum annars staðar á jörðinni.

Grein Elínar Fjólu og Ólafs

Fyrri greinVarað við byggingu í flóðfarvegi
Næsta greinTvö umferðarslys í síðustu viku