Rannsóknir, nám og önnur fræðsla um sveitarstjórnarmál verður efld til muna í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál sem sett verður á laggirnar á Laugarvatni í samvinnu Háskóla Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu samstarfssamning þar að lútandi á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga á Hótel Örk í dag.
Gert er ráð fyrir að starfsemi í nýju rannsóknasetri um sveitarstjórnarmál hefjist 1. janúar næstkomandi.
Nýtt rannsóknasetur verður hluti af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands en stofnunin og Stjórnmálafræðideild skólans hafa í auknum mæli lagt áherslu á rannsóknir á sviði sveitarstjórnarmála á síðustu misserum og árum.
Heildarstuðningur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins nemur 36 milljónum kr. á tímabilinu og verður nýttur til að þróa starfsemi setursins. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára.
„Hið nýja rannsóknasetur er þýðingarmikið skref í að efla fræðilegar rannsóknir á málefnum sveitarstjórna um land allt. Það er sérstaklega ánægjulegt að starfsemin fái aðsetur á Laugavatni í tengslum við rótgróið þekkingarsamfélag sem þar hefur verið um langan aldur. Samningurinn sem undirritaður var í dag er í takt við viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélagsins Bláskógabyggðar frá árinu 2016 um áframhaldandi starf Háskólans á Laugarvatni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Þjónusta við sveitarstjórnarstigið
Rannsóknasetrið verður í senn rannsókna-, fræðslu- og þjónustustofnun fyrir sveitarstjórnarstigið og munu rannsóknir innan þess styðja við opinbera stefnumótun og ákvarðanir í málefnum sveitarfélaga og á sviðum byggða-, samgöngu- og samskiptamála. Rannsókna- og verkefnaáherslur setursins munu m.a. snúa að hlutverki og stöðu kjörinna fulltrúa í byrjun 21. aldar, aðkomu íbúa að ákvörðunum sveitarstjórna, samspili dreifbýlis og þéttbýlis í sameinuðum sveitarfélögum og áhrifum stórborgarmyndunar á samskipti sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Forsvarsfólk setursins horfir til þess að nýta húsnæði Háskóla Íslands á Laugarvatni við rekstur þess en góð aðstaða er þar fyrir styttri námskeið og kennslulotur í þeim hluta MPA-námsins sem snýr að sveitarstjórnarmálum. Ráðinn verður verkefnisstjóri við setrið og mun hann hafa starfsstöð í húsnæði Háskólans á Laugarvatni en Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála verður jafnframt forstöðumaður setursins.