Rangt símkort í svifryksmæli

Svifryksmælir sem Umhverfisstofnun fékk lánaðan frá Akureyri og setti upp í Fljótshverfi í Grímsvatnagosinu í sumar virkaði aldrei. Ástæða bilunarinnar var að rangt símkort var í honum.

„Þegar mælirinn var kominn aftur norður þá kom í ljós að ástæða bilunarinnar var sú að hann var með símkort frá Vodafone og þar sem Síminn þjónustar svæðið hér þá fengust engar upplýsingar frá mælinum,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, í samtali við Sunnlenska.

Íbúar í Fljótshverfi hafa nú bent sveitarstjórn Skaftárhrepps á að nauðsynlegt sé að koma upp svifryksmæli í Fljótshverfi sem fyrst. Sveitarstjórn tekur undir þetta með íbúum og telur nauðsynlegt að svifryksmælar séu bæði á Klaustri og í Fljótshverfi.

„Það koma dagar þar sem eru mikil ónot. Þegar það hefur verið sól í einn til tvö daga þá kemur rykið en ef það er rigning þá eru allir glaðir. Þetta er því ekki síður sálrænt,“ segir Eygló og bætir við að áskoruninni verði komið hið fyrsta á Umhverfisstofnun.

Fyrri grein„Virðist vera að lyppast niður“
Næsta greinBjörgun ferðamannsins gekk vel