Rangárþing ytra styrkir fyrstu íbúðarkaupendur

Hella. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti á síðasta fundi sínum fyrir jól nýjar reglur um styrk á móti fasteignaskatti fyrir fyrstu íbúðarkaupendur í sveitarfélaginu.

Reglurnar gilda til reynslu í tvö ár og miða að því að gera kaupendum fyrstu íbúðar auðveldara að stíga fyrsta skrefið inn á fasteignamarkaðinn hér hjá okkur.

Um er að ræða 50% afslátt af fasteignaskatti og gildir afslátturinn í eitt ár frá afsali.

„Við vitum að margir eldri íbúar eiga börn og barnabörn sem vilja gjarnan búa nær fjölskyldu sinni. Með þessum styrk getum við t.d. létt á þeim í upphafi, stutt við framtíðaráform þeirra hér í sveitarfélaginu og um leið eflt samfélagið okkar til lengri tíma. Þetta er viðleitni til að fjárfesta í næstu kynslóð og framtíð Rangárþings ytra,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Á-listans og sveitarstjórnar.

„Þessi aðgerð var samþykkt til reynslu, tímabundið til tveggja ára. Við erum fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem fer þessa leið og við hjá Á-listanum erum mjög spennt að sjá hver viðbrögðin verða. Sveitarfélagið stendur vel og hefur alla burði til þess að koma til móts við fyrstu kaupendur – þó að það hafi verið ákveðin vonbrigði að minnihlutinn hafi ekki séð sér fært að styðja við málið,“ sagði Eggert Valur ennfremur.

Fulltrúar D-lista létu bóka að þeir söknuðu þess að nokkuð kostnaðarmat fylgdi með þessari tillögu Á-lista. Þá væri þessi leið flókin, fasteignaskattur væri þegar lágur í sveitarfélaginu og Rangárþing ytra hefði nú þegar forskot í þeim efnum.

Fyrri greinÞór átti ekkert svar í seinni hálfleik
Næsta greinStjarnan skein í seinni hálfleik