Rangárnar langefstar

Veiði í Rangánum er komin í tæpa níu þúsund laxa og bera þær höfuð og herðar yfir aðrar laxveiðiár á landinu í sumar.

Úr Ytri-Rangá voru í kvöld komnir 4.599 laxar á land og 4.275 úr þeirri Eystri.

Í þriðja sæti á listanum er Miðfjarðará með 2.364 laxa en þar er veiðisumrinu lokið.

Ytri-Rangá er að gefa ágætlega miðað við árstíma en undanfarið hefur veiðin verið í 35 til 50 laxar á dag þó að síðustu tveir dagar hafi gefið minna, eða um 20 laxa. Mest hefur veiðst á maðk undanfarið en flugan er ekki langt á eftir. Lúsugir laxar hafa veiðst síðustu daga svo það er en lax að ganga í ánni.

Veitt er út október í Rangánum en veiðin í sumar hefur jafnast ekki á við sumarið 2010. Á sama tíma í fyrra voru Rangárnar í 11.649 löxum en tæplega 700 laxar veiddust í október í fyrra.