Rangæingar skoða stofnun verslunarfélags

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að boða til íbúafundar um verslunarmál á svæðinu þar sem meðal annars verði kannaður grundvöllur fyrir stofnun almenningshlutafélags um rekstur matvöruverslunar á Hvolsvelli.

Fulltrúar D-listans, sem eru í minnihluta í sveitarfélaginu, lögðu þessa tilllögu fram á síðasta fundi sveitarstjórnar og var hún samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu.

Í greinargerð D-listans með tillögunni segir að nú sé orðið ljóst að sáralitlar líkur séu á því að eigendur lágvöruverslanakeðja sjái sér nægan hag í að reka slíka verslun í sveitarfélaginu á næstu árum, þrátt fyrir öflugar málaumleitanir af hálfu sveitarstjórnarmanna, bæði á þessu og fyrri kjörtímabilum, í þá veru.

„Með tilliti til fjölda ferðamanna og fjölgunar þeirra verður líklega arðsamt að reka verslun á Hvolsvelli í framtíðinni. Ástæðulaust er að afhenda alla slíka þjónustu í hendur stórfyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og viljum við láta reyna á hvort samtakahugur íbúanna er nægilegur til að menn sameinist um stofnun og rekstur slíks fyrirtækis,“ segir í greinargerð D-listans.

Á Hvolsvelli er rekin Kjarvalsverslun í eigu Kaupáss en fyrr á árinu eignaðist sveitarfélagið húsnæðið sem verslunin er í. Á sama fundi lá fyrir bréf frá Kaupási þar sem fyrirtækið óskar eftir áframhaldandi leigu á húsnæðinu en sveitarfélagið hefur þegar tilkynnt Kaupási að samningurinn verði ekki framlengdur óbreyttur.

Elvar Eyvindarson, oddviti D-listans, sagði í samtali við Sunnlenska að tillagan væri ekki endilega sett fram til höfuðs núverandi verslun. „Nei, þarna er bara möguleiki á að nýir aðilar geti fengið tækifæri,“ segir Elvar og bætir við að hugmyndin sé ekki sú að sveitarfélagið fari út í verslunarrekstur. „Það verða einhverjir aðrir að draga þann vagn. Við höfum helst viljað sjá lágvöruverðsverslun hér, þessi er of dýr,“ segir Elvar. „Það eru þrjár á Selfossi, kannski væri sniðugt fyrir einhvern þeirra aðila að koma hingað austur.“

Fyrri greinHamar tapaði í jöfnum leik
Næsta greinVilja líka ljósnet í Bláskógabyggð