Rampur númer 825 opnaður með viðhöfn

Edda Guðmundsdóttir vígði rampinn. Ljósmynd/Leifur Þór Ragnarsson

Rampur nr. 825 í verkefninu Römpum upp Ísland var opnaður með viðhöfn við Ingustofu á Sólheimum síðastliðinn laugardag. Sextán rampar hafa verið settir upp að Sólheimum, allir af stærri gerðinni.

Markmiðið með verkefninu er að setja upp 1.500 rampa á landinu öllu en það hefur verið aukið um þriðjung, úr 1.000 í 1.500 og verklok ákveðinn ári á undan áætlun eða í lok næsta árs.

Það var Edda Guðmundsdóttir íbúi að Sólheimum sem vígði rampinn en hún styður sig við göngugrind. Við þetta tækifæri sagði Edda „Það er gott á fá ramp!“ og klippti svo á borðann. Halli Valli spilaði á gítar og stjórnaði söng sem Ármann Eggertsson, Guðlaug Jónatansdóttir og Hanný María Haraldsdóttir fluttu ásamt Sólheimakórnum.

Sigurjón Örn Þórsson, stjórnarformaður Sólheima, sagði í ávarpi sínu að verkefnið Römpum upp Ísland væri trúlega eitt mikilvægasta átak sem gert hefur verið í aðgengismálum á Íslandi í seinni tíð. Hann fagnaði frumkvæði Haraldar Þorleifssonar, sem láti verkin tala. Verkefnið njóti einnig mikilvægs stuðnings stjórnvalda og fjölda annarra aðila sem lagt hafi verkefninu lið. Sólheimar njóti nú góðs af þessu mikilvæga verkefni og fyrir það væru íbúar og starfsfólk Sólheima afar þakklát.

Fyrri greinFræðsluganga í Alviðru á Degi íslenskrar náttúru
Næsta greinMyndlistarnemar sýna í Listagjánni