Rakastigið í Hamarshöllinni leyfir ekki parket

Bæjarstjórn Hveragerðis hefur samþykkt að leggja parket á gólfið í íþróttahúsinu í Hveragerði í sumar. Hátt rakastig í nýju Hamarshöllinni leyfir ekki parketgólf.

Fulltrúar minnihlutans lögðu fram bókun vegna þessa þar sem þeir segja að ætla hefði mátt að 400 milljón króna fjárfesting í loftbornu æfingahýsi hefði leyst vanda körfuknattleiksmanna til að spila sinn knattleik á parketgólfi, eins og reglur Körfuknattleikssambands Íslands krefjast, en svo sé ekki.

„Vegna þess hversu rakastigið er hátt í æfingahýsinu leyfir það ekki parketgólf. Þess vegna verður að verja rúmlega 10 milljónum króna til þessarar framkvæmdar. Þetta er neyðarleg staðreynd og sýnir að hundruð milljóna króna fjárfesting sjálfstæðismanna í þessu íþróttamannvirki muni ekki nýtast vinsælustu boltaíþrótt bæjarins sem skyldi, eins og hún ætti að sjálfsögðu að gera, “ segir í bókun minnihlutans.

Meirihlutinn lét bóka að vegna óvissu um rakastig í Hamarshöllinni þyki ekki rétt að setja þar parket enda er jafn ljóst að körfuknattleiksmenn vilji helst spila í íþróttahúsinu við Skólamörk.

Fyrri greinTorfæruhjóli stolið á Selfossi
Næsta greinSelfossvöllur lítur „fáránlega vel út“