Ragnheiður Elín kveður stjórmálin

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ætlar að kveðja stjórnmálin að loknu þessu kjörtímabili en hún fékk ekki brautargengi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í gær.

Ragnheiður Elín varð í 4. sæti en Páll Magnússon sigraði örugglega.

„Ég hef tekið þátt í fjórum prófkjörum – fagnað sigri í þremur þeirra en náði ekki því marki sem að var stefnt nú. Með sama hætti og ég hef fagnað þeim skilaboðum sem í sigrunum hafa falist meðtek ég skilaboðin sem niðurstaða gærdagsins gefur til kynna,“ segir Ragnheiður Elín á Facebooksíðu sinni.

„Stjórnmálin hafa verið minn starfsvettvangur í tæpa tvo áratugi. Ég var aðstoðarmaður ráðherra í níu ár í þremur ráðuneytum, hef verið þingmaður í tæp tíu ár bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, verið þingflokksformaður og ráðherra. Ég hef tekið þátt í að skrifa söguna og verið í forystu í stjórnmálum á gríðarlega miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Það hefur verið stórkostlegt að vinna við það að bæta samfélagið, sjá hugmyndir verða að veruleika,“ segir Ragnheiður ennfremur.
Fyrri greinFram vann á Selfossi
Næsta greinAri Trausti leiðir Vinstri-græna