Ragnheiður, Haukur og Ásdís hlutu peningastyrki

Hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknasjóðs Suðurlands fór fram á dögunum þar sem þrír nemendur í masters- og doktorsnámi hlutu styrki til rannsóknaverkefna sinna, 400.000 krónur hver.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, fyrrum bæjarstjóri í Árborg, fékk styrk fyrir mastersverkefni sitt sem fjallar um viðbragðsáætlanir sveitarfélaga á Suðurlandi við samfélagsáföllum og hvernig nýta má þekkingu félagsráðgjafar til að efla viðnámsþrótt samfélaga. Vinnuheiti verkefnisins er „Viðnámsþróttur og viðbragðsáætlanir sveitarfélaga á Suðurlandi“.

Haukur Ingvarsson fékk styrk fyrir doktorsverkefni sitt sem nefnist „William Faulkner á Íslandi“. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvernig ímynd bandaríska skáldsagnahöfundarins Williams Faulkners (1897–1962) varð til og þróaðist á Íslandi á tímabilinu 1930 til 1970. Rannsóknin skiptist í þrjá hluta og þungamiðja í þeim fyrsta er Sunnlendingurinn Guðmundur Daníelsson.

Ásdís Benediktsdóttir fékk einnig styrk fyrir doktorsverkefni sem unnið er við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands í samvinnu við Uppsalaháskóla og Veðurstofu Íslands og felur í sér að kanna innri gerð Eyjafjallajökuls með nýjum aðferðum á sviði jarðskjálftafræði.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson veitti þremenningunum styrkinn og ávarpaði fundinn.

Fyrri greinMálþroski barna eflist markvisst í gegnum leik
Næsta greinDagbók lögreglu: Mikil slysavika