Rafræn skýrsla um umhverfisáhrif Búrfellslundar

Frummatsskýrsla mats á umhverfisáhrifum Búrfellslundar, vindmyllusvæðis ofan við Búrfell, liggur nú fyrir. Landsvirkjun hefur sett skýrsluna fram á nýjan og aðgengilegri hátt með rafrænni framsetningu.

Í skýrslunni er fjallað um fyrirhugaðan vindlund, niðurstöður rannsókna og möguleg áhrif á umhverfi Búrfellslundar. Skýrsluna er að finna hér.

Landsvirkjun hefur ákveðið að setja skýrsluna fram á nýjan og aðgengilegri hátt með rafrænni framsetningu. Er þetta í fyrsta sinn sem mat á umhverfisáhrifum virkjunarkosts er kynnt með þessum hætti á Íslandi. Er það gert með því markmiði að auðvelda hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi að kynna sér verkefnið og koma á framfæri athugasemdum og ábendingum.

Rafræna skýrslan gerir það mögulegt að skýra frá verkefninu og sýna á mjög myndrænan hátt hver umhverfisáhrif vindlundarins eru á mismunandi þætti og út frá þeim tveimur tillögum sem til skoðunar eru.

„Við teljum mikilvægt að sem breiðust sátt ríki um framkvæmdir okkar og eru góð samskipti við almenning og hagsmunaaðila þar mikilvægur þáttur. Rafræn framsetning á frummatsskýrslu umhverfismats Búrfellslundar er þannig hluti af viðleitni okkar til að þróa nýjar og betri leiðir til samskipta og auðvelda bæði almenningi og hagsmunaaðilum að kynna sér verkefnið á stigi þar sem enn er hægt að hafa áhrif á útfærslu þess,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Skipulagsstofnun auglýsti skýrsluna miðvikudaginn 14. október og er frestur til athugasemda sex vikur frá þeim degi. Öllum athugasemdum skal skila inn til Skipulagsstofnunar.

Að loknum kynningartíma frummatsskýrslu verður tekin saman endanleg matsskýrsla að teknu tilliti til athugasemda sem berast.

Í desember 2012 reisti Landsvirkjun tvær rannsóknarvindmyllur á Hafinu. Reksturinn hefur gengið vonum framar og gefið mikilvægar upplýsingar um nýtingartíma og hvernig er að reka vindmyllur við íslenskar aðstæður. Rannsóknir sýna að staðurinn henti einkar vel til vindorkuframleiðslu.

Hægt er að kynna sér rafræna matið hér.

Fyrri greinStraumlaust í Þorlákshöfn og Rangárþingi í nótt
Næsta greinÓdýrt að æfa handbolta á Selfossi