Rafmagnslaust undir Eyjafjöllum í nótt – Mýrdælingar beðnir um að spara rafmagnið

Ljósmynd: RARIK/Bernard Kristinn

Frá miðnætti í kvöld og til klukkan 8 á þriðjudagsmorgunn verður rafmagn keyrt á varaafli í Vík og nágrenni en rafmagnslaust verður hjá viðskiptavinum RARIK undir Eyjafjöllum.

Þetta orsakast af vinnu Landsnets við tengivirki í Rimakoti en gera þarf breytingar á tengivirkinu vegna nýs jarðstrengs milli Hellu og Rimakots og nýrra sæstrengja milli Rimakots og Vestmannaeyja. Í tilkynningu frá RARIK segir að stjórnstöð og framkvæmdaflokkar Rarik hafi undirbúið sig vel fyrir þetta og sendar hafa verið út tilkynningar til viðskiptavina svo þau geti gert ráðstafanir.

Fyrri tilkynning frá stjórnstöð RARIK virðist þó hafa valdið einhverjum misskilningi en í nýrri tilkynningu frá RARIK segir að rétt sé að vara við hugsanlegum truflunum á dreifingu rafmagns í Mýrdal og að Kirkjubæjarklaustri á þessum tíma ef óvænt atvik skyldu verða, s.s. áflug fugla á línur.

„Sveitin undir Eyjafjöllum mun verða án rafmagns meðan á vinnu Landsnets stendur og hafa viðskiptavinir okkar þar verið látnir vita af því. Við viljum biðja þau velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda. Ekki ætti að koma til rafmagnstruflana á Kirkjubæjarklaustri vegna aðgerðanna í Rimakoti,“ segir í tilkynningunni og eru viðskiptavinir RARIK í Vík og Mýrdal beðnir um að fara sparlega með rafmagn til að auðvelda varaaflskeyrsluna eins og hægt er.

Til dæmis megi koma í veg fyrir óþarfa álag með því að slökkva á ljósum og raftækjum sem ekki eru í notkun, bíða með að setja af stað þvottavélar, þurrkara og uppþvottavélar til morguns og fresta hleðslu rafbíla og annarra stórra tækja.

„Þannig getum við öll hjálpast að við að tryggja stöðugt rafmagn til þeirra heimila og fyrirtækja sem treysta á varaflið þessa nótt og komið í veg fyrir truflanir vegna álags,“ segir í tilkynningunni.

Fyrri greinRagnarsmótið hefst í kvöld
Næsta greinÍslands- og héraðsmet sett á MÍ í fjölþrautum