Rafmagnslaust á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn

Rafmagnslaust er á öllu hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn og á iðnaðarsvæðinu þar í kring eftir að starfsmaður Fiskmarkaðarins ók lyftara á rafmagnskassa með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í kassanum og rafmagni sló út.

Ökumann lyftarans sakaði ekki en sprenging varð í kassanum við áreksturinn og gaus upp mikill eldur.

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn var kallað út kl. 3:22 í nótt en þegar það kom á vettvang hafði hafnarverði tekist að slökkva eldinn að mestu.

Rafmagnskassinn og kaplarnir í honum eru ónýtir og er talið að það muni taka talsverðan tíma að koma rafmagninu á aftur.

Fyrri greinFanney með 34 stig í naumu tapi
Næsta greinBrjálað að gera hjá lögreglu og sjúkraflutningamönnum