Rafmagn víðast komið á aftur

Rafmagnslaust var nú síðdegis á Selfossi, Hveragerði og víðar á Suðurlandi. Ástæða rafmagnsleysisins var bilun í Selfosslínu 1, sem liggur frá Ljósafossvirkjun að Selfossi.

Rafmagnið fór af klukkan korter fyrir fimm. Auk Selfoss var rafmagnslaust í Hveragerði, Þorlákshöfn og dreifbýli Ölfuss, á Eyrarbakka og Stokkseyri og í Sandvíkurhreppi.

Varaleiðin sem Landsnet notar til að koma rafmagni aftur á annar ekki allri orkuþörfinni og þess vegna var lengur rafmagnslaust í dreifbýlinu. Línan er enn biluð og rafmagni er veitt frá Hellu. Ekki er vitað hvað olli biluninni, en viðgerðarflokkur frá Landsneti er kominn á staðinn og kannar aðstæður.

UPPFÆRT 17:22: Rafmagn er komið á á Selfossi, Stokkseyri og Eyrarbakka.

UPPFÆRT 17:26: Rafmagn er komið á í Hveragerði og Þorlákshöfn.

UPPFÆRT 17:29: Enn er rafmagnslaust á skrifstofu sunnlenska.is í Sandvíkurhreppi. Íbúar eru orðnir uggandi vegna kvöldmjaltanna.

UPPFÆRT 18:18: Rafmagn komið á í Sandvíkurhreppi.

Fyrri greinFyrsta barn ársins á HSu
Næsta greinFjóla Signý og Jón Daði íþróttafólk Árborgar