Rafmagn leitt í Veiðivötn

Miklar líkur eru á að rafmagn verði komið í Veiðivötn næsta sumar en samningar eru í gangi milli hagsmunaaðila um að leiða þangað streng úr Vatnsfelli.

„Það hefur verið á döfinni í all nokkurn tíma og nú sér vonandi fyrir endann á þessu,“ segir Kjartan Magnússon í Hjallanesi, formaður Veiði og fiskiræktarfélags Landmannaafréttar í samtali við blaðið.

Hann segir félagið í samstarfi við Neyðarlínuna, sem hefur haft hug á að koma rafmagni í sendi á vegum fyrirtækisins uppi á Snjóöldu.

Í Veiðivötnum yrði rafmagnið nýtt í skála, til lýsingar og upphitunar og almennra þarfa. „Það yrði bylting fyrir svæðið og gott að losna við gasið,“ segir Kjartan.

Strengurinn sem leggja þarf er um 15,5 kílómetra langur en samningsaðilar Landmanna og Neyðarlínunnar eru Rarik og Landsvirkjun, sem orkusalar og dreifingaraðili. Kjartan segir að símfyrirtækjum hafi verið boðin þátttaka í verkefninu en ekki sé útséð með það. Hann segir málið vonandi að komast á framkvæmda stig og ekki sé fráleitt að rafmagn verði komið á svæðið næsta vor.

Fyrri greinÞrýst á að hraða leikskólabyggingu
Næsta greinGuðmunda og Björn Kristinn best