Rættist úr vinnusumrinu í Þórsmörk

Ný brú smíðuð í Langadal. Ljósmynd: Charles J. Goemans

Vinna við stígagerð og viðhald í Þórsmörk hefur gengið vel í sumar. Hópur sumarstarfsfólks hefur verið þar að störfum fyrir tilstilli atvinnuátaks stjórnvalda en eftir að liðkast fór um ferðalög fólks til landsins hafa sjálfboðaliðar bæst í hópinn.

Þrátt fyrir veirufaraldurinn náðist að skipuleggja sex vikna sjálfboðastarf á svæðinu í sumar. Strax í júní tóku að tínast til landsins sjálfboðaliðar þegar liðkað var til fyrir ferðalögum til landsins.

Segja má að allt hafi fallið í réttar skorður um 20. júlí því þá hófst sex vikna törn sjálfboðahópa sem tókst með endurskipulagningu að setja saman þrátt fyrir veirufaraldurinn. Því er óhætt að segja að ræst hafi úr með verkefnin á Þórsmerkursvæðinu í sumar eftir margra mánaða óvissutíma.

Það sem af er sumri hefur annars vegar verið lögð áhersla á að leggja stein- og timburtröppur í gönguleiðunum á Valahnúk og hins vegar almennt viðhald á gönguleiðinni um Fimmvörðuháls og endurbætur á merkingum þar. Eins og venjulega hafa sjálfboðaliðar líka tekið þátt í gróðursetningu.

Greint er frá þessu á heimasíðu Skógræktarinnar.

Fyrri greinTöfrar Tokic kláruðu Kára
Næsta greinGámasvæði Árborgar áfram lokað